ID4 eða IndependenceDay varð ein vinsælasta mynd ársins 1996 enda var ekkert til sparað til að skemmta áhorfendum frá toppi til táar! Þetta er vísindatryllir og ævintýri fyrir flesta aldurshópa og segir frá því þegar heldur ófrýnilegar verur utan úr geimnum koma á risastórum geimskipum inn í lofthjúp jarðar og ætla sér ekkert minna en heimsyfirráð. Stórkostlegar tæknibrellur, spenna og grín í bland, og skemmtilegir leikarar í öllum hlutverkum.
Myndin hefst á því þegar vísindamenn NASA verða varir við að eitthvað einkennilegt er að gerast í námunda við tunglið. Svo virðist sem einhverjir risastórir hlutir séu á sveimi í geimnum og áður en langt um líður kemur í ljós að þetta eru geimför frá óþekktri plánetu. Á skömmum tíma sigla þessi risastóru skip inn í gufuhvolfið og taka sér stöðu fyrir ofan allar helstu höfuðborgir heims. Enginn veit í fyrstu hvað er að gerast, hvort hér sé um heimsókn vinalegra lífvera að ræða eða hvort jarðarbúum stafi hætta af þessari heimsókn. Þeirri spurningu fæst fljótlega svarað þegar risastórir hlerar opnast neðan á geimförunum og gífurlega öflugur geisli jafnar heilu borgirnar við jörðu á svipstundu. Þar með gera jarðarbúar sér ljóst að það á að útrýma þeim í eitt skipti fyrir öll. Landsstjórnir senda þegar sín öflugustu vopn til móts við þennan vágest en þau mega sín lítils gegn innrásarliðinu sem beitir gífurlega tæknilegum aðferðum til að verjast. Um stund virðast öll sund vera lokuð og baráttan töpuð - þangað til einn snjall vísindamaður fær brjálæðislega hugmynd. Og á hana verður að láta reyna!
Aðalhlutverk: Will Smith, Jeff Goldblum, Randy Quaid og Bill Pullman Leikstjóri: Roland Emmerich Aldurstakmark: 12 ára Lengd: 140 mín.