Sölugluggi
10. október 2000


 
Innkaupakarfa: 0 stk.   










  Til baka á forsíðu
  Möguleikar
Að kaupa

Sendu vini þínum gjöf

Skrifaðu þína eigin umsögn
  Toppurinn...
... í rokki
... í poppi
... í rappi
... í dansi
... í klassík
... í jassi/blús
  Ýmislegt
Skoða flokka
Vinsældarlistar
Mælt með
Nýjar sendingar
Nýtt - væntanlegt
Tilboðshorn
  Annað
Safnplötur
Kvikmyndatónlist
Verðlaunaplötur
Bara það besta
  Bónusklúbbur
Hvað er það?
Skráðu þig hér
Meðlimir
Ingimar Eydal
Kvöldið er okkar
Útgefandi: Íslenskir tónar Verð: 1.000,-
Flokkur: CD ÍSL.
Vörunúmer:
TD028

 


 Um plötuna:

Flytjandi: Hljómsveit Ingimars Eydal
Titill: Kvöldið er okkar
Raðnúmer: TD 028
Allur réttur áskilinn (c) 1996 Spor ehf (p) 1996 Spor ehf
Þessi útgáfa er helguð minningu Ingimars Eydal, sem hefði orðið sextugur 20. október 1996.

1. Vor í Vaglaskógi (Kvöldið er okkar) 2:50
Lag: Jónas Jónasson. Texti: Kristján frá Djúpalæk.

2. Mig dregur þrá 3:05
Lag: Kilgore/King, texti: Kristján frá Djúpalæk.

3. Í sól og sumaryl 2:16
Lag og texti: Gylfi Ægisson.

4. Sjómannavalsinn 2:32
Lag: Svavar Benediktsson. Texti: Kristján frá Djúpalæk.

5. Bara að hann hangi þurr 2:32
Lag: Bowers, Senners, Edward Madden. Texti: Ómar Ragnarsson.

6. María Ísabel 2:31
Lag: J. Moreno & L. Moreno. Texti: Ásta Sigurðardóttir.

7. Ungur þér unni ég 2.24
Lag: Jay, Harris. Texti: Birgir Marinósson.

8. Á sjó 2:50
Lag: Don Wayne. Texti: Ólafur Ragnarsson.

9. Og þó 2:15
Lag: Peter Warne, Alan Moorhouse. Texti: Þorvaldur Halldórsson & Ásta Sigurðardóttir.

10. Spánardraumur 3:33
Lag: Coerts, Rozenstraten, Gomez. Texti: Einar Haraldsson.

11. Litla, sæta, ljúfan góða 2:47
Lag: Thore Skogman. Texti: Valgeir Sigurðsson.

12. Ó, hvað get ég gert 2:14
Lag: Þorvaldur Halldórsson. Texti: Ómar Ragnarsson.

13. Ég sá þig 2:45
Lag og texti: Gylfi Ægisson.

14. Hún er svo sæt 2:54
Lag: Þorvaldur Halldórsson. Texti: Ómar Ragnarsson.

15. Sumarást 3:37
Lag: Lee Hazlewood. Texti: Ásta Sigurðardóttir.

16. Hoppsa bomm (Á skíðum skemmti ég mér) 2:04
Lag: H. Meyer, G. Ruscher, B. Berg. Texti: Ásta Sigurðardóttir.

17. Ég tek hundinn 2:39
Lag: Macrea, Barton. Texti: Ómar Ragnarsson.

18. Raunasaga 2:06
Höfundur lags ókunnur. Texti: Maron Vilhjálmsson.

19. Litla Gunna og litli Jón 3:24
Lag: Páll Ísólfsson. Texti: Davíð Stefánsson.

20. Hvítur stormsveipur 2:25
Lag: Finnur Eydal.

Um útgáfuna:
Sumarið 1989 hringdi Ingimar Eydal í mig og lýsti yfir miklum áhuga á að safna saman vinsælustu lögum hljómsveitar sinnar og gefa þau út á geislaplötu. Nokkru áður hafði ég fengið það verkefni að fara kerfisbundið ofan í saumana á þeirri tónlist sem SG-Hljómplötur, Fálkinn, Íslenskir Tónar, Tónika, Steinar og fleiri frumherjar íslenskrar hljómplötuútgáfu höfðu gefið út, með það fyrir augum að koma henni aftur í markaðshæft ástand. Í fyrstu taldi ég þetta auðvelt verk, en þegar farið var að rannsaka hlutina betur komu ýmis vandkvæði upp. Mikill fjöldi segulbanda var glataður og gamlar hljómplötur sem voru enn heillegar voru yfirleitt í það slæmu ástandi að nær ógerlegt var að notast við þær til útgáfu. Þetta ræddum við Ingimar og lögðum á ráðin um hvernig bjarga mætti tónlist hans frá gleymsku. Á næstu mánuðum áttum við Ingimar mörg og góð samtöl um þessi mál, en leiðin að markinu virtis æ torsóttari eftir því sem við köfuðum dýpra. Stór hluti af framleiðslu-segulböndum hljómsveitar hans reyndust týnd og tröllum gefin. Þessvegna var ekki um annað að ræða en að finna þokkaleg plötueintök og lagfæra rispur og aðra galla sem á þeim leyndust. Við bundum það fastmælum að gera allt sem í okkar valdi stæði til að finna týndu segulböndin, en að öðrum kosti að leita uppi ,,góðar” plötur til að afrita. Ennfremur hófust samningaviðræður við Pálma Stefánsson í Tónabúðinni um kaup á útgáfuréttindum Tónaútgáfunnar, sem gaf út nokkrar plötur Hljómsveitar Ingimars Eydal. Þeim viðræðum lauk farsællega, en ekki fyrr en eftir að Ingimar lést. Segulbönd Tónaútgáfunnar voru því miður týnd, líkt og svo mörg önnur frá þessum árum, en Pálmi átti óspiluð eintök af þeim plötum sem hann gaf út og einnig lánaði Finnur Eydal, bróðir Ingimars, plötur úr safni sínu til afritunar. Smám saman nálguðumst við markið og stórum áfanga var náð sumarið 1995, þegar samband komst á við norska útgefandann Arne Bendiksen. Fyrir tilviljun frétti ég að hann geymdi segulbönd með íslenskri tónlist á heimili sínu í Noregi. Við hittumst þegar hann kom til að sitja ráðstefnu hér á landi vorið 1995 og með okkur tókust góð kynni. Arne Bendiksen féllst á að afhenda okkur þessi segulbönd fyrir sanngjarna þóknun og gladdist mjög yfir að þau kæmust aftur heim til Íslands. Nefndi hann að svona segulbönd hefðu ekki minni þýðingu fyrir tónlistarsögu þjóðarinnar, en gömlu handritin fyrir bókmenntasögu Íslendinga og þessvegna hefði hann talið það skyldu sína að varðveita þau í öll þessi ár. Meðal þeirra segulbanda sem komu frá Noregi, voru upptökurnar af fyrstu tveimur EP plötum Hljómsveitar Ingimars Eydal frá árinu 1965. Þetta var mikill fengur. Nú var loksins hægt að ljúka því verki sem við Ingimar hófum sumarið 1989. Í góðri samvinnu við fjölskyldu Ingimars og þá ekki síst Ástu Sigurðardóttur eiginkonu hans og fyrrum hljómsveitarmeðlimi, tókst að ljúka verkinu á endanum. Þessi útgáfa er því afrakstur sjö ára vinnu.
Það er von okkar að þessi safnútgáfa veiti aðdáendum Ingimars Eydal og hljómsveitar hans ánægju. Þetta er einskonar minnisvarði um tónlist Hljómsveitar Ingimars Eydal eins og hún hljómaði í útvarpi, sjónvarpi og í Sjallanum á því tíu ára tímabili sem upptökurnar spanna.

Jónatan Garðarsson

LISTIN AÐ LIFA
Ingimar Eydal ætlaði sér aldrei að verða tónlistarmaður. Í æsku dreymdi hann um að verða bílaframleiðandi, skipaverkfræðingur, slökkviliðsstjóri eða kennari. Ekki vantaði áhugann á bílum, skipum eða eldvörnum hjá Ingimar allt hans líf og eflaust hefði hann náð langt þar, ef hann hefði farið út á þær brautir. Ingimar var lífsnautnamaður í þeim skilningi að hann hafði gaman af að lifa, áhugasviðin voru ótæmandi og oft óskaði hann þess að klukkustundirnar í sólarhringnum væru fleiri. Tónlistin og kennslan urðu hans ævistarf, en hann lét til sín taka á fleiri sviðum. Hann tók þátt í bæjarpólitíkinni á Akureyri, starfaði í félagsmálaráði, skólanefnd, æskulýðsráði, umhverfisnefnd og áfengisvarnarráði bæjarins, stjórnaði útvarpsþáttum og rak um tíma ferðaskrifstofu. Hann hafði ódrepandi áhuga á skógrækt, náttúruvernd, ferðalögum, stjórnmálum og sögu og hafði yndi af rökræðum um eins ólik efni og framleiðslu á Skodabifreiðum og sálmasöng í kirkjum. Ingimar var bóngóður með afbrigðum og átti erfitt með að segja nei, ef hann var beðinn um viðvik. Hann var því önnum kafinn maður, en fann ætíð lausa stund og var mættur á réttum tíma, þó tíðum hafi það staðið tæpt. Þegar kom hins vegar að grundvallargildum lífsins stóð Ingimar fastur fyrir og sagði oft nei. Fjölskyldan og afkoma hennar var honum meira virði en nokkuð annað og þó hann væri oft fjarverandi sökum sérkennilegs vinnutíma, þá voru það gæði samvistanna frekar en magn, sem skiptu máli. Hann var kröfuharður á sig og aðra í hljómsveit sinni, ekki eingöngu hvað tónlistina áhrærði, heldur fremur að samstarfsfólkið stæði sig sem manneskjur. Óheiðarleiki og óregla voru eitur í beinum Ingimars. Hann bragðaði ekki áfengi m.a. vegna þess að hann gat ekki hugsað sér að eyða dýrmætum tíma í að vera óklár í kollinum eða timbraður svo og svo marga klukkutíma daginn eftir. Hann vildi ekki glata hæfileikanum til að geta skemmt sér ófullur. Ef til vill virkar það sem þversögn að maður með þetta viðhorf til áfengis skuli hafa starfað eins mikið við að skemmta meira eða minna drukknu fólki. En Ingimar sá stöðu sína öðrum augum en flestir aðrir eins og svo oft áður. Ef Hljómsveit Ingimars Eydal stæði sig í stykkinu, héldi uppi fjöri, ynni vinnuna sína sómasamlega, þá finndi fólk síður þörf fyrir einn gráan í viðbót. Ingimar var að mörgu leyti maður, sem sigldi á móti straumnum. Í kaldhæðni væri hægt að segja að innfæddur Akureyringur, starfandi bæði í stúkunni og Framsóknarflokknum, væri ekki heppilegasta uppskriftin að skemmtilegheitum, lífi og fjöri. Ingimar Eydal blés á og hló að slíkum fordómum. Hann uppskar það að heilla hvert mannsbarn, ekki aðeins vegna tónlistarhæfileika sinna, heldur einnig vegna spaugsamrar frásagnarlistar og hlýleika.Vinnufélagi Ingimars orðaði það svo að í návist hans upplifði fólk sig skemmtilegra en áður og það er ekki svo afleitt að vera þeim kostum gæddur. Þessi persónueinkenni Ingimars komu einnig glöggt fram í kennslustörfum hans í grunnskólum Akureyrar. Þar var hann býsna frjálslegur kennari. Tímar hans í söng og eðlisfræði vildu fara út um víðan völl, en þegar upp var staðið hafði Ingimar skilið eftir sitthvað þroskandi og gefandi.Og svo stjórnaði hann vinsælustu ballhljómsveit Íslands um árabil .

PÍANISTINN VERÐUR TIL
Ingimar Eydal fæddist í Jerúsalem 20. október árið 1936. Jerúsalem var nafn á húsinu við Hafnarstræti 93 í miðbæ Akureyrar, en þar bjuggu foreldrar hans Pálína og Hörður Eydal. Fyrstu árin bjó hann í Jerúsalem, en í upphafi stríðs flytur hann "upp í sveit", á Hlíðargötuna, sem nú er nánast í miðbænum. Þar ólst Ingimar upp, elstur þriggja bræðra, við hefðbundna skólagöngu og leiki þess tíma. Bræður Ingimars voru þeir Finnur, fæddur 1940, og Gunnar, fæddur 1943. Eitt höfðu þeir bræður þó fram yfir leikfélaga sína. Það var frænka þeirra, Þyrí Eydal. Hún var tónlistarkennari og kom snemma auga á tónlistarhæfileika Ingimars og Finns. Þeir kynntust heimi klassískrar tónlistar og byrjuðu að læra á hljóðfæri, Ingimar á píanó og Finnur á klarinett. Þegar Ingimar var 11 ára fór hann ásamt Finni og nokkrum vinum þeirra að hlusta á djass og við það opnaðist nýr heimur fyrir þá bræður. Ingimar hreifst einkum af swing tónlistinni með þá Benny Goodman, Teddy Wilson og Art Tatum í broddi fylkingar og alla tíð spilaði Ingimar djass af þeim skóla. Hann kunni síður að meta bebop eða nútíma djass, en dáði hins vegar Dave Brubeck og Oscar Peterson. Ingimari þótti fljótlega skemmtilegra að fást við djassinn en klassíkina og í raun fannst Ingimar ætíð ánægjulegast að spila djass. Þegar Ingimar byrjaði í Gagnfræðaskóla Akureyrar var stofnuð skólahljómsveit, sem þeir Finnur störfuðu í og sú sveit lék fyrir dansi einu sinni í viku. Að sögn Ingimars þótti hljómsveitin ákaflega léleg og var yfirleitt klöppuð niður á böllum. En Ingimar þroskaðist við mótlætið og honum fór mikið fram sem píanóleikara. Unglingsárin voru honum, líkt og jafnöldrum hans, stundum erfið. "Ég var feiminn og mér fannst ég mesti lumminn og lúðinn af öllum, í gúmmítúttum og lopapeysu" sagði hann síðar. Á Hótel Norðurlandi var starfandi hljómsveit á þessum árum (í kringum 1950) og þar vantaði píanóleikara. Ingimar kunni að lesa nótur og var ráðinn þó ungur væri og vænkaðist nú heldur hagur hans í augum skólasystkina. Þarna tók Ingimar að mótast sem píanisti og hæfileikar hans til að spila alls kyns tónlist komu í ljós. Hann reyndist hafa þær gáfur að geta spilað allt, muna alla tónlist og koma henni frá sér þannig að eftir var tekið. Á 6. áratugnum spilaði Ingimar ásamt Finni með ýmsum akureyrskum danshljómsveitum í Alþýðuhúsinu og víðar. Sú þekktasta var Atlantic kvartettinn, en þar gerðu söngvararnir Óðinn Valdimarsson og Helena Eyjólfsdóttir garðinn frægan. Þegar tími vannst til var gripið í djassinn og spiluðu Ingimar og Árni Scheving m.a. saman í hljómsveit sem þeir á hógværan hátt kölluðu Modern Jazz Quartet Akureyrar.

FJÖR Í SJALLANUM
Hljómsveit Ingimars Eydal varð til vorið 1962. Sjallinn á Akureyri tók til starfa ári síðar og brátt fór að fréttast um land allt að böll í Sjallanum væri skemmtun sem fútt væri í. Og ástæðan? Hljómsveit Ingimars Eydal. Ingimar var ætíð allra manna snjallastur að "lesa" salinn. Hann vissi nákvæmlega hvaða tónlist ætti við hverju sinni, hvernig halda átti uppi fjöri. Ingimar áttaði sig fljótt á því að dansleikir eru ekki heppilegasti staðurinn til að kenna tónlist, heldur verða dansgestir að fá að ráða ferðinni undir hæfilegri leiðsögn. Hér hjálpaði til fordómaleysi Ingimars gagnvart tónlist. Hann lagði sig eftir því að heyra ferskustu popplögin með því að hlusta á Radíó Luxemburg og var kominn með nýjasta bítlalagið í dansprógrammið löngu áður en það heyrðist í Ríkisútvarpinu. Hljómsveit Ingimars Eydal var einnig þekkt fyrir suðræna tónlist á böllum sínum og má segja að sveitin hafi verið Bogomil Font og Milljónamæringunum á ýmsan hátt fyrirmynd. Nú hófst blómaskeið Hljómsveitar Ingimars Eydal, sem stóð í um 10 ár frá 1965-1975. Á þessum árum var hljómsveitin ein sú alvinsælasta á Íslandi. Hún spilaði inn á plötur fjölda laga, sem urðu á hvers manns vörum og vakti verulega athygli með framkomu sinni í þáttum á bernskudögum Sjónvarpsins. Þegar hljómsveit Ingimars Eydal tók sér frí frá spilamennsku í Sjallanum og hélt suður yfir heiðar var engu líkara en erlendar stórstjörnur væru á ferð. Færri komust að en vildu á dansleiki og fjörið og galsinn voru með almesta móti. Með Ingimari spiluðu á þessum árum margir úrvals tónlistarmenn um lengri eða skemmri tíma. Fyrst ber að nefna söngvarana Vilhjálm heitinn Vilhjálmsson og Þorvald Halldórsson. Báðir slógu þeir rækilega í gegn með Hljómsveit Ingimars Eydal. Vilhjálmur söng t.d. "Vor í Vaglaskógi" og Þorvaldur "Á sjó". Þessi tvö lög náðu hreint ótrúlegum vinsældum þegar þau komu út í lok árs 1965 og voru spiluð linnulaust í óskalagaþáttum Ríkisútvarpsins í nokkur ár þar á eftir. Hjónin Finnur Eydal og Helena Eyjólfsdóttir voru í hljómsveitinni um langa hríð á blómaskeiðinu. Finnur spilaði á klarinett og baritónsaxófón og lag hans "Hvítur stormsveipur" undirstrikaði sveifluna sem ætíð var til staðar í tónlist hljómsveitarinnar. Söngur Helenu var skemmtileg andstæða við djúpan bassa Þorvaldar. Sérgrein hennar var suðræn sveifla og hún naut sín einkar vel í djassskotnum lögum. Erla Stefánsdóttir söngkona, Grímur Sigurðsson söngvari, gítar- og bassaleikari, sem var manna lengst í hljómsveitinni, Árni Ketill trommari og Bjarki Tryggvason söngvari og bassaleikari voru og engir aukvisar. Bjarki söng lag og texta Gylfa Ægissonar "Í sól og sumaryl", lag sem í hugum margra er sumarlag númer eitt á Íslandi. Grallaraspóarnir Friðrik Bjarnason gítarleikari og Hjalti Hjaltason trommuleikari settu skemmtilegan svip á hljómsveitina á 7. áratugnum og áttu sök á ýmsum óborganlegum uppátækjum.

BING ! - OKKAR MAÐUR !
Hljómsveit Ingimars Eydal var húshljómsveit í Sjallanum á Akureyri og spilaði fyrir matar- og ballgesti bæði um helgar og á virkum dögum. Það segir sig sjálft að á virkum dögum var stundum fámennt í mat og lítið að gera hjá kokkum, þjónum og dyravörðum. Snemma eitt síðsumarskvöldið í Sjallanum var allt útlit fyrir rólegheit fram eftir kvöldi. Kokkarnir fóru í bíó, þjónarnir fengu sér að reykja, dyraverðirnir sátu að tafli og hljómsveitin sat og sötraði kaffi uppi á sviði. Ingimar stendur upp og stefnir fram í eldhús að huga að snittum og sósum. Á leiðinni rekur hann augun í spjald á einu borðinu og þar stendur: "Bing Crosby - 12 manns". Nú varð uppi fótur og fit(a). Ingimar hóaði hljómsveitinni saman, kokkarnir voru sóttir við litlar vinsældir út af miðri mynd, þjónarnir drápu í vindlingunum og dyraverðirnir pökkuðu saman taflinu, löguðu bindin og gyrtu skyrtur ofan í buxur. Það rifjaðist upp fyrir mönnum að hinn heimsfrægi ameríski raulari Bing Crosby hafði undanfarna daga verið að reyna við lax austur í Þingeyjarsýslu og nú ætlaði hann að slaka á eina kvöldstund í "Sjallinn Akureyri Iceland". Kokkarnir settu lambaketið í pottinn, þjónarnir löguðu servétturnar og dyraverðirnir æfðu honör. Hljómsveitin ræddi um að gaman væri að spila eitthvað sem karlinn hefði sungið, en enginn mundi eftir neinu, nema White Christmas. Þetta var hins vegar í júlí og tæplega við hæfi. Allt var orðið klárt, en það dróst að karlinn léti sjá sig. Eftir að hafa haldið í sér hlátrinum í rúma tvo tíma, kom loks að því að tveir hrekkjalómar sprungu. Það sem gerði útslagið var þegar Ingimar spurði óþolinmóður og hálf sár: "Hvernig er það, ætli hann Bing fari ekki að koma"?

HVAÐ ER SVO GLATT
Ingimar Eydal var gæfumaður í einkalífi. Hann kvæntist Ástu Sigurðardóttur sjúkraliða árið 1961. Börn þeirra eru fjögur, Guðný Björk, Inga Dagný, Ingimar og Ásdís Eyrún. Ingimar og Ásta voru samrýmd og kappkostuðu að hafa fjölskylduböndin sterk. Þessa samkennd yfirfærðu þau á hljómsveitina, því það einkenndi Hljómsveit Ingimars Eydal alla tíð hversu góð vinátta var innan hennar og milli fjölskyldna hljómsveitarmeðlima. Ingimar lenti í alvarlegu umferðarslysi árið 1976 og í kjölfarið tók við erfið endurhæfing. Hljómsveitin hætti að spila og Ingimar var ákveðinn í að draga sig út úr spilamennskunni. Hann spilaði þó töluvert djass með vinum og kunningjum og var Menntaskólinn á Akureyri gjarnan vettvangur slíkra tónleika. Ingimar gat þó ekki slitið sig frá dansleikjahaldi og upp úr 1980 var komin ný útgáfa af Hljómsveit Ingimars Eydal, sem spilaði saman með litlum hléum allt þar til Ingimar féll frá í janúar 1993. Kjarnann í hljómsveitinni mynduðu Ingimar, dóttir hans Inga, Snorri Guðvarðarson gítarleikari, Þorleifur Jóhannsson trommari og Grímur Sigurðsson. Alltaf naut hljómsveitin hylli dansleikjagesta og var hljómsveitin á þeytingi um allt land flestar helgar því ekki skorti verkefnin. Hljómsveitin var einnig oft kölluð út fyrir landsteina, til Bandaríkjanna, meginlands Evrópu og Norðurlanda til að spila fyrir landann á þorrablótum og þjóðhátíðardögum. Haustið 1987 var sett upp sýningin "Stjörnur Ingimars Eydal í 25 ár" í Sjallanum, þar sem fram komu flestir samstarfsmenn Ingimars í gegnum árin. Sýningin gekk fyrir fullu húsi svo mánuðum skipti og var einnig sett upp á skemmtistaðnum Broadway í Reykjavík. Ingimar var afburða snjall "dinner" píanisti. Ólafur Laufdal veitingamaður var fljótur að átta sig á aðdráttarafli hans. Hann réði Ingimar til að spila fyrir matargesti á Broadway, Hótel Borg og Hótel Íslandi á 9. áratugnum. Ingimar og Ásta kona hans bjuggu þá um skeið í Reykjavík, en flugferðirnar suður og norður aftur voru eigi að síður ófáar. Yfirburðir Ingimars á þessu sviði voru ótvíræðir. Hann kunni öll lög, tengdi þau snilldarlega saman, sýndi fram á skyldleika þeirra á frumlegan hátt og gat orðið við öllum beiðnum um óskalög. Ingimar var undirleikari Ómars Ragnarssonar um árabil þegar Ómar skemmti fyrir norðan. Ómar og Ingimar náðu einkar vel saman, voru á sömu línu í viðhorfum til áfengis, snöggir að vinna og þurftu í raun aldrei að æfa eitt eða neitt. Ingimar barðist við krabbamein síðustu árin, sem hann lifði og varð að lúta í lægra haldi þann 10. janúar 1993. Elja hans og úthald við hljóðfæraleik og störf var með ólíkindum síðustu mánuðina sem hann lifði. Á einum af síðustu dansleikjum Hljómsveitar Ingimars Eydal á Hótel Selfossi, spilaði Ingimar fyrst einn í tvo tíma fyrir matargesti, þá tók við fjögurra tíma törn með hljómsveitinni og í lokin stjórnaði hann fjöldasöng. Ingimar kvaddi Íslendinga helsjúkur með því að láta þá syngja, eins og svo oft áður: "Hvað er svo glatt, sem góðra vina fundur".

Kristján Sigurjónsson

 Umsagnir
  Enginn hefur skrifað umsögn um þessa plötu. Vertu fyrst(ur) til þess!