Sölugluggi
17. janúar 2001


 
Innkaupakarfa: 0 stk.   










  Til baka á forsíðu
  Möguleikar
Að kaupa

Sendu vini þínum gjöf

Skrifaðu þína eigin umsögn
  Toppurinn...
... í rokki
... í poppi
... í rappi
... í dansi
... í klassík
... í jassi/blús
  Ýmislegt
Skoða flokka
Vinsældarlistar
Mælt með
Nýjar sendingar
Nýtt - væntanlegt
Tilboðshorn
  Annað
Safnplötur
Kvikmyndatónlist
Verðlaunaplötur
Bara það besta
  Bónusklúbbur
Hvað er það?
Skráðu þig hér
Meðlimir
Gunnar þórðarson
Þitt Fyrsta Bros
Útgefandi: Íslenskir tónar Verð: 999,-
Flokkur: CD ÍSL.
Vörunúmer:
TD26

 

 Lagalisti, plata 1:

01. Ég elska alla – Stjórnin
02. Gaggó Vest – Eiríkur Hauksson
03. Himin og jörð – Bo Hall
04. Dýrið gengur laust – Ríó Tríó
05. Norðurljós – Eyjólfur Kritjáns
06. Þitt fyrsta bros - Pálmi Gunnars
07. Lít ég börn leika sér – Trúbrot
08. Lífsgleði – Hljómar
09. Starlight – Jet Black Joe
10. Í útileigu – Þú og ég

  11. Síðasti dansinn – Ríó
12. Þú og ég – Hljómar
13. Don’t Go To Strangers – Þú og ég
14. Ertu með? – Bítlavinafélagið
15. Fyrsti kossinn – Hljómar
16. Ef harpa þín þagnar – Bo Hall
17. Við Reykjarvíkurtjörn – Egill og Björgvin
18. Drottningin rokkar – Gunnar Þórðarson
19. Morgungjöf – Jóhanna Linnet
20. Tilbrigði um fegurð – Gunnar Þórðarson

 Lagalisti, plata 2:

01. Ljósvíkingur – Egill Ólafsson
02. Sóley – Björgvin og Katla María
03. Harðsnúna Hanna – Lónlí blú bojs
04. Fjólublátt ljós við barinn – Klíkan
05. Gull – Eiríkur Hauksson
06. Hrafnin – Vilhjálmur Vilhjálms.
07. Ég veit þú að kemur – Stjórnin
08. Hafið – Bo Hall
09. Húsin í bænum – Egill Ólafsson
10. Dans, dans, dans – Þú og ég

  11. Landiið fýkur burt – Ríó
12. Heim í Búðardal – Lónlí blú bojs
13. Heyrðu mig góða – Hljómar
14. Er hann birtist – Eiríkur Hauksson
15. Enginn er Eyland – Bo Hall
16. Reykjavík – Ragnhildur Gísladóttir
17. Létt – Ríó
18. A Little Song Of Love – Trúbrot
19. Bláu augun þín – Hljómar
20. Ástarsæla – Sigrún Eðvaldsdóttir

 Um plötuna:

GUNNAR ÞÓRÐARSON

Gunnar Þórðarson fagnaði 50 ára afmæli sínu í góðra vina hópi 4. janúar 1995, á afmælistónleikum sem haldnir voru í veitingasal Hótels Íslands. Nokkru síðar, eða í mars á þessu ári voru liðin 30 ár frá því að fyrsta litla plata Hljóma kom út. Sú plata olli þáttaskilum, því hún var fyrsta íslenska bítlaplatan sem kom út hér á landi. Það þótti tíðindum sæta að bæði lögin á plötunni ,,Fyrsti kossinn” og ,,Bláu augun þín” voru eftir gítarleikara hljómsveitarinnar, hinn tvítuga Gunnar Þórðarson. Textana hafði annar gítarleikari samið, Ólafur Gaukur sem var þekktur úr KK-sextettinum, en ekki síður sem stjórnandi eigin hljómsveita. Lögunum var vel tekið og urðu fljótlega mjög vinsæl og þar með varð lagasmiðurinn Gunnar Þórðarson landsþekktur.

Þessi hægláti gítarleikari fæddist 4. janúar 1945 á Hólmavík við Steingrímsfjörð og ólst þar upp til 7 ára aldurs er fjölskylda hans flutti suður til Keflavíkur. Það var komið að því að byrja skólanám þegar til Keflavíkur kom og eignaðist hann því fjótt félaga úr röðum jafnaldra sinna. Á sumrin lék hann fótbolta með yngri flokkum ÍBK og varð liðtækur með boltann þrátt fyrir smávægilega fötlun á fæti. Á unglingsárunum gerðist Gunnar trommuleikari skólahljómsveitarinnar Skugga og þar kynntist hann gítarleikaranum Erlingi Björnssyni. Gunnari gekk ekki allskostar vel að höndla trommurnar og snéri sér fljótlega að rafmagnsgítarnum. Gunnar var fljótur að ná tökum á gítarnum og bauð hljómsveitarstjórinn Guðmundur Ingólfsson honum í sveit sína þegar hann var aðeins 17 ára gamall. Trommuleikari hljómsveitarinnar Eggert Kristinsson var tveimur árum eldri en Gunnar, en hinir meðlimirnir voru þó nokkuð eldri. Stundum söng bráðefnilegur piltur Einar Júlíusson með þeim, en strákunum leiddist að leika gömlu lögin og gældu því við þá hugmynd að stofna sína eigin hljómsveit sem léki tónlist fyrir unga fólkið. Góður félagi Gunnars var hinn efnilegi fótboltakappi Rúnar Júlíusson. Sumarið 1963 störfuðu þeir báðir sem leigubílstjórar á Vellinum og notuðu tímann milli ferða til að ræða hugmyndina um sína eigin hljómsveit. Rúnar kunni hinsvegar ekki á neitt hljóðfæri, en var nokkuð liðtækur söngvari. Gunnar tók því að sér að kenna honum á bassa. Eggert hafði farið út til Englands í enskunám um sumarið og þegar hann kom aftur heim um haustið létu þeir drauminn rætast og stofnuðu Hljóma. Eggert var með hæggenga hljómplötu í fórum sínum með nýrri hljómsveit frá Liverpool sem nefnd var The Beatles. Hljómarnir æfðu nokkur laga plötunnar og fluttu þau meðal annars þegar þeir komu fram í fyrsta skipti 5. október 1963 í Krossinum í Ytri Njarðvík. Lög Bítlanna féllu í góðan jarðveg og þar með var brautin mörkuð.

Saga Gunnars Þórðarsonar er flestum kunn eftir þetta. Hann starfaði með Hljómum fram til vorsins 1969 þegar Trúbrot varð til eftir einhverjar mestu hræringar íslenskrar poppsögu. Eftir Hljóma lágu þá tvær stórar 12 laga plötur, ein tveggja laga smáskífa og tvær fjögura laga EP plötur. Á þessum plötum léku Hljómar vinsæl erlend lög við íslenska texta í bland við frumsamin lög eftir Gunnar. Lög Gunnars urðu ekki síður vinsæl en erlendu lögin og eru þau flest jafnvinsæl í dag og þau voru þá. Með þessu sýndi Gunnar og sannaði að íslenskir tónlistarmenn gátu samið jafngóð popplög og erlendir höfundar. Gunnar var því einskonar sporgöngumaður popptónskálda sem á eftir honum hafa komið. Hann létti öðrum höfundum róðurinn og lagði grunninn að farsælli útgáfustarfsemi í þessu fámenna þjóðfélagi. Frá þessum upphafsárum eru lögin ,,Lífsgleði”, ,,Þú og ég”, ,,Ertu með”, ,,Er hann birtist”, ,,Ég elska alla”, ,,Ástarsæla” og ,,Heyrðu mig góða”.

Trúbrot gerði alls fjórar breiðskífur á fjögura ára starfsferli og tvær litlar plötur. Hljómsveitin hafði aðeins starfað sumarlangt og meðlimirnir voru enn að móta tónlistarstefnuna þegar fyrsta breiðskífan var hljóðrituð í Lundúnum haustið 1969. Þrátt fyrir ýmsa vankanta sem finna má á plötunni vakti hún talsverða athygli og var útnefnd plata ársins af tónlistargagnrýnendum blaðanna. Litlu plöturnar tvær sem fylgdu í kjölfarið eru með því merkasta sem Trúbrot gerði, því þar er hinn framsækni stíll orðinn vel mótaður. Þó mun tónverkið Lifun sennilega halda nafni Trúbrots lengst á lofti. Við smíði Lifunar ríkti mikið bræðraþel í hljómsveitinni og réð það mestu um útkomuna. Fyrir bragðið bar lítið á einstökum tónsmíðum Gunnars á plötunni, en áhrifa hans gætti töluvert í heildarmyndinni. Af lögum Gunnars frá Trúbrots árunum má tilgreina hið undurfagra lag ,,Lít ég börn að leika sér”, auk laganna ,,Starlight”, ,,Little Song of Love” og ,,Ég veit að þú kemur”, sem ætti frekar að heita Ég vil að þú komir, en það er önnur saga

Nokkru eftir að Trúbrot hættu í mars 1973 fór Gunnar með félögum sínum í Ríó tríói til Bandaríkjanna í hljómleikaferðalag. Í ágúst, þegar Gunnar var kominn heim á ný, voru Hljómar endurreistir. Erlingur Björnsson kaus að taka ekki þátt í leiknum og tók Birgir Hrafnsson sæti hans fram til áramóta, en í ársbyrjun 1974 leitaði Gunnar til Björgvins Halldórssonar sem gekk til liðs við Hljóma ‘74. Í fyrstu virtist endurlífgun Hljóma vera ágætis hugmynd, en þegar á leið kom annað í ljós. Hljómar fóru til Bandríkjanna og hljóðrituðu eina plötu við enska texta sem kom út á ellefuhundruð ára afmæli Íslandsbyggðar og seldist ekki nógu vel. Hljómar ‘74 hættu þessvegna í október 1974. Eftir það héldu Gunnar og Björgvin til Lundúna á vegum bókaútgáfunnar Iðunnar til að hljóðrita ,,Vísnaplötuna”, sem er talin mest selda plata Íslandssögunnar, en hún seldist í rúmlega 20.000 eintökum árið sem hún kom út. Á lönguföstunni 1975 starfrækti Gunnar Jazzhljómsveit Gunnars Þórðarsonar, en þar sem Hljómamenn höfðu stofnaði sitt eigið útgáfufélag var ákveðið reyna að halda lífinu í fyrirtækinu. Þeim datt það snjallræði í hug að búa til leynihljómsveitina Ðe Lónlí Blú Bojs og gefa út plötu með amerískum kúreka og sveitasöngvum við íslenska texta. Uppátækið gekk upp, fyrsta platan seldist feikilega vel og Lónlí blú bojs varð ein vinsælasta hljómsveit landsins á augabragði. Lónlí blú bojs gáfu út þrjár stórar plötur og 2 litlar plötur sem innihéldu að mestu ameríska sveitasöngva við íslenska texta Þorsteins Eggertssonar. Ekki var mikið af frumsamdri tónlist á efniskrá Lónlí blú bojs, ef undan eru skilin hin vinsælu lög Gunnars ,,Heim í Búðardal” og ,,Harðsnúna Hanna”, sem eru fyrir löngu orðnir sígildir slagarar.

Hljómar höfðu breyst úr hljómsveit í útgáfufyrirtæki og gáfu því gaum að tónlist annarra tónlistarmanna. Þannig æxlaðist það að Hljómaútgáfan gaf út fyrstu plötur þjóðlagasveitanna Þokkabótar og Randvers. En útgáfusamstarfið reyndi á þolrifin og að endingu slitu þeir samstarfinu, Rúnar stofnaði Geimstein og Gunnar setti Ými á stofn. Hann gaf meðal annars út sólóplötu með félaga sínum Engilbert Jensen, gerði Halla, Ladda og Gísla Rúnar landsfræga með grínplötunni ,,Látum sem ekkert c” og var ábyrgur fyrir vinsældum ,,Lummana” sem gáfu út tvær metsöluplötur.

Gunnar gaf út fyrstu sólóplötu sína árið 1975 og stefndi að vinnslu fleiri einherjaplatna. Hann samdi ennfremur tónlist fyrir aðra listamenn. Árið 1976 samdi hann m.a. ,,Hrafninn” að ósk Vilhjálms Vilhjálmssonar við samnefnt ljóð Kristjáns frá Djúpalæk sem kom út á plötu Vilhjálms ,,Með sínu nefi” það ár. Þá starfaði Gunnar í fyrsta sinn með Hrafni Gunnlaugssyni, þegar Hrafn fékk hann til að semja tónlist við umdeilda sjónvarpskvikmynd sína ,,Blóðrautt sólarlag”. Um líkt leyti samdi Hrafn texta við lag Gunnars ,,Drottningin rokkar”. Þeir hafa síðan unnið nokkuð saman og Gunnar samið tónlist við ýmsa sjónvarpsþætti og kvikmyndir annarra leikstjóra.

Það var á vordögum 1978 sem Gunnar hóf vinnslu tvöfalds plötualbúms, sem jafnframt var annað einherjaverkefni hans. Á annarri plötunni voru allir textar á íslensku og var hún hljóðrituð hér á landi. Hin platan var sungin á ensku og hélt Gunnar vestur til Bandaríkjanna í júlí og hljóðritaði með bandarískum tónlistarmönnum fram í október. Platan kom síðan út 27. nóvember, viku eftir að Gunnar hafði haldið útgáfutónleika í Háskólabíói.

Árið1979 varð fyrsta íslenska diskóplatan til þegar ,,Ljúfa líf” með dúettinum Þú og ég kom út í nóvember það ár. Tímasetning útgáfunnar var hárrétt og hlaut platan afburða viðtökur. Ári seinna komu út nokkrar smáskífur með You and I í Japan og var tónlist dúettsins ágætis útflutningsvara í Asíu og víðar. Þú og ég gerðu þrjár stórar plötur á íslensku, auk einnar plötu á ensku sem kom víðsvegar út í heiminum. Frá þessum tíma eru lögin ,,Dans, dans, dans”, ,,Í útilegu” og Don’t go to strangers”. Þegar Þú og ég leið undir lok, snéri Gunnar sér að gerð annarskonar platna. Hann safnaði saman hópi söngvara og tónlistarmanna og gerði plötur í eigin nafni, þó svo að hann kæmi ekki fram sem söngvari eða framlínumaður á neinn hátt. Fyrsta platan nefndist ,,Íslensk alþýðulög” og samanstóð af gömlum íslenskum þjóðlögum, stemmum og einsöngslögum í nýjum útsetningum Gunnars. Í kjölfarið fylgdi platan ,,Himinn og jörð” sem innihélt einvörðungu tónlist eftir Gunnar í túlkun nokkurra söngvara. Þar á meðal voru lögin ,,Himinn og jörð”, ,,Fjólublátt ljós við barinn” og ,,Þitt fyrsta bros”, en textann við síðastnefnda lagið samdi Ólafur Haukur Símonarson fyrir Gunnar þegar kona hans Toby Herman gekk með fyrsta barn þeirra árið 1981. Platan fékk góðar móttökur og þar með var Gunnar búinn að finna sér nýjan tónlistarjarðveg.

Árið 1985 settust Gunnar og Ólafur Haukur niður til að semja saman og platan Borgarbragur varð til. Tildrögin voru þau að árið eftir stóð til að fagna 200 ára kaupstaðarafmæli Reykjavíkur og ákváðu þeir félagar að helga höfuðborginni þessa plötu. Þeir réðust af krafti í verkið og fyrir jólin 1985 kom Borgarbragur út. Platan vakti mikla athygli og seldist ákaflega vel. Af þessari plötu urðu fjölmörg lög vinsæl, þ.á.m. ,,Gaggó Vest”, ,,Gull” og ,,Við Reykjavíkurtjörn”, en texta síðastnefnada lagsins gerði Davíð Oddsson, þáverandi borgarstjóri Reykjavíkur að beiðni Gunnars. Á afmælisári Reykjavíkur var Gunnar kvattur til að gera aðra plötu ,,Reykjavíkurflugur”, þar sem hann færði ýmis þekkt Reykjavíkurlög í nýjan búning. Hrafni Gunnlaugssyni var falið það verkefni að gera leikna heimildarmynd um borgina sem hann kallaði Reykjavík Reykjavík. Hann leitaði til Gunnars og bað hann um að gera tónlist við myndina. Urðu þá til lögin ,,Húsin í bænum” við ljóð borgarskáldsins Tómasar Guðmundssonar og ,,Reykjavík” við samnefnt ljóð Einars Benediktssonar.

Þegar Íslendingar ákváðu að taka þátt í Evróvisjón, söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, var leitað til allra helstu tónsmiða landsins. Árið 1987 sendi Gunnar lagið ,,Norðurljós” í keppnina og komst það í úrslit, en bar ekki sigur úr bítum. Nokkrum árum síðar, eða 1990 stóð Gunnar mjög nálægt því að sigra þessu sömu keppni með laginu ,,Sóley”, en lagið lenti í öðru sæti það ár.

Samstarf Gunnars og Ólafs Hauks hefur verið einkar farsælt. Árið 1987 sömdu þeir tónlist og texta fyrir plötuna ,,Í loftinu”. Nokkur af lögum plötunnar féllu í góðan jarðveg hjá útvarps- og sjónvarpsfólki, en salan var dræm. Af þessari plötu má m.a. nefna lögin ,,Ljósvíkingur”, ,,Morgungjöf ”, ,,Enginn er eyland” og ,,Ef harpa þín þagnar”. Nokkrum árum síðar sömdu þeir félagar saman söngleikinn ,,Á köldum klaka”, sem Leikfélagi Reykjavíkur setti upp í Borgarleikhúsinu 1991.

Árið 1988 voru 50 ár liðin frá því að Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn hér á landi. Af því tilefni leitaði Sjómannadagsráð til Gunnars og bað hann að endurgera nokkur þekkt sjómannalög fyrri ára. Gunnar brást vel við, kallaði til sín nokkra þekkta söngvara og gerði plötuna Á frívaktinni. En hann bætti um betur og samdi fallegt lag ,,Hafið”, sem var eina lag plötunnar sem samið var sérstaklega af þessu tilefni.

Samstarf Gunnars Þórðasonar og Ríó tríós hófst árið 1970, þegar Gunnar kom fram með þeim á tónleikum í Háskólabíói. Síðan hefur Gunnar verið fimmti meðlimur tríósins, en hirðskáld þeirra Jónas Friðrik Guðnason hefur hingað til jafnan talist fjórða hjól undir vagni þeirra Ríó manna. Þrátt fyrir áralangt starf með Ríó og fjölda platna, var það ekki fyrr en árið 1989 að Gunnar lét verða af því að semja tónlist á heila plötu fyrir þá. Þegar platan ,,Ekki vill það batna” kom út í vetrarbyrjun 1989, var ljóst að hún myndi slá fyrri met Ríó manna, enda seldist hún gríðarlega vel. Af þessari plötu eru lögin ,,Dýrið gengur laust”, ,,Síðasti dans” og ,,Létt”. Tveimur árum síðar lögðu þeir félagar Landgræðslu Ríkisins lið með plötunni ,,Landið fýkur burt” og er titillagið fyrir löngu orðið sígilt.

Á síðustu árum hefur hugur Gunnars Þórðarsonar hneigst æ meir í átt til sígildrar tónlistar. Hefur kveðið svo rammt að þessum áhuga að Gunnar hefur sótt tíma í tónsmíðum hjá kunnustu tónskáldum þjóðarinnar og fyrir nokkru frumflutti Sinfóníuhljómsveit Íslands fyrstu sinfónínu hans. Gunnar sækir tónleika Sinfóníunnar reglulega og á orðið marga góða vini úr röðum hljómsveitarmanna.

Þegar hin válegu tíðindi um að mannskætt snjóflóð hefði fallið á Súðavík í ársbyrjun 1995, samdi Gunnar minningarlag um hina látnu við ljóð séra Hjálmars Jónssonar. Þá brugðu félagar Gunnars úr Sinfóníuhljómsveit Íslands vel við og æfðu lagið ásamt söngvurunum Pálma Gunnarssyni, Guðrúnu Gunnarsdóttur og kammerkór Langholtskirkju. Var lagið frumflutt í þætti Hemma Gunn ,,Á tali” og snerti það viðkvæma strengi í brjóstum margra. Vegna fjölda óska er lagið ,,Kveðja” gefið út á þessari yfirlitsútgáfu.

Fjölmargir tónlistarmenn heiðruðu Gunnar á afmæli hans 4. janúar síðastliðinn með því að flytja lögin hans. Meðal þeirra var fiðluleikarinn Sigrún Eðvaldsdóttir sem lék nýja útsetningu Gunnars á hinu hugljúfa Hljóma lagið Ástarsæla. Þegar farið var að íhuga þessa safnútgáfu, þótti kjörið að fá Sigrúnu til að hljóðrita lagið og kemur þessi nýja útfærsla lagsins út í fyrsta sinn á þessu lagasafni.

Hljóðritunarferill Gunnars Þórðarsonar spannar nú 30 ár. Á þeim tíma hefur hann hljóðritað ógrynni laga eftir aðra tónsmiði, auk eigin tónlistar. Þá hefur Gunnar lagt mörgu listafólki lið sem upptökustjóri, útsetjari og gítarleikari. Það er því aðeins brotabrot af tónsköpun hans sem birtist á þessari yfirlitsútgáfu. Afköst tónsmiðsins Gunnars Þórðarsonar eru með ólíkindum. Það hafa rúmlega 300 lög eftir hann komið út á hljómplötum og er hann afkastamesta dægurlagatónskáld þjóðarinnar. Þau 40 lög sem við höfum valið á þessa útgáfu, gefa aðeins þversnið af verkum hans. Einhverjir kunna að sakna einstakra laga og aðrir hefðu ef til vill kosið ap heyra sýnishorn af sinfónískum tónsmíðum hans. Ekki þótti rétt að einskorða valið við þær upptökur sem Gunnar hefur sjálfur leikið, sungið eða stýrt vinnslu á. Þessvegna var markvisst leitast við að víkka sjóndeildarhringinn og auka fjölbreytnina með úrvali nýlegra hljóðrita með söngvurum og hljómsveitum sem hafa leitað í smiðju Gunnars á undanförnum árum. Það er von okkar að tekist hafi að draga upp heilstæða mynd af ferli þessa merka höfundar.

Jónatan Garðarsson

 Umsagnir
  Enginn hefur skrifað umsögn um þessa plötu. Vertu fyrst(ur) til þess!